Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
   fim 02. maí 2024 17:35
Elvar Geir Magnússon
Jökull í markið hjá KR í sumarglugganum?
Jökull Andrésson.
Jökull Andrésson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Jökull Andrésson er orðaður við KR og sögusagnir í gangi um að Vesturbæjarliðið gæti fengið hann til liðs við sig í sumarglugganum.

Jökull er 22 ára en bróðir hans er varnarmaðurinn Axel Óskar Andrésson sem gekk í raðir KR í vetur.

Þeir bræður eru uppaldir í Aftureldingu en Jökull hefur verið hjá enska félaginu Reading síðan 2017 en farið oft í lán í neðri deildirnar á Englandi.

Samningur hans við Reading rennur út eftir eitt ár en hann er núna hjá Carlisle á láni. Þar hefur hann spilað sex leiki á tímabilinu í ensku C-deildinni en ekki verið í hóp síðan í nóvember, þegar hann brákaði á sér öxlina á æfingu.

Jökull hefur leikið fyrir yngri landslið Íslands og þá á hann einn A-landsleik skráðan en hann lék fyrri hálfleikinn í vináttulandsleik gegn Úganda í janúar 2022.

Guy Smit sem gekk í raðir KR í vetur hefur fengið gagnrýni fyrir frammistöðu sína í undanförnum leikjum en hann gaf mark í 3-2 tapinu gegn Breiðabliki á dögunum.

Íslenski sumarglugginn verður opinn frá 17. júlí til 13. ágúst.
Athugasemdir
banner