Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
   fim 02. maí 2024 12:54
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Chess After Dark 
Tvær ákvarðanir sem Jón Rúnar sér eftir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Rúnar réði Óla Kristjáns haustið 2017.
Jón Rúnar réði Óla Kristjáns haustið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mætti aftur í Kaplakrika haustið 2022.
Mætti aftur í Kaplakrika haustið 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gulli varð Íslands- og bikarmeistari með FH.
Gulli varð Íslands- og bikarmeistari með FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Rúnar Halldórsson, stjórnarmaður í ÍTF og fyrrum formaður knattspyrnudeildar FH, var gestur í hlaðvarpsþættinum Chess After Dark í vikunni. Hann ræddi um Hybrid-grasið í Kaplakrika, KSÍ, FH, rekstur fótboltafélaga, Morten Beck málið og ýmislegt annað í þættinum. Jón Rúnar hætti sem formaður knattspyrnudeildar FH árið 2019.

Haustið 2017 tók hann þá ákvörðun að segja upp samningi Heimis Guðjónssonar sem hafði verið þjálfari meistaraflokks karla í áratug. Sú ákvörðun var umtöluð og umdeild og enn rætt um hana í dag. Jón Rúnar nýtti ákvæði í samningi Heimis við félagið, sagði honum upp eftir að Íslandsmótinu lauk. Heimir var ósáttur við tímasetningu þar sem önnur félög á Íslandi voru öll búin að ráða þjálfara. Því þurfti Heimir að halda til Færeyja þar sem hann átti svo eftir að gera góða hluti hjá HB. Ólafur Kristjánsson var ráðinn þjálfari FH.

„Það eru augnablik þar sem þú ert svo handviss um að þú sért að gera rétt. Ég mat það þannig að við værum komnir á ákveðna endastöð, komnir á hálfgerða sjálfstýringu. Það er breytt til og það vita það allir að það gekk ekki upp. Þarna hefði maður átt að staldra aðeins við, var ekki betra að setja Heimi í endurhleðslu? En svo er líka hægt að segja að þetta hafi verið gott fyrir hann, fara og ná sér í endurhleðslu annars staðar. Við vorum það heppnir að hann er kominn aftur og ég býst við mjög miklu. Þetta er einn af þessum gæjum sem eru eins og Duracell-ið, rennur aldrei út af batteríum. Það er ótrúlegt hvernig þessi drengur hugsar og eldmóðurinn er svo mikill. Ég held samt sem áður að okkur sé öllum hollt að taka aðeins hlé til þess að aðeins geta séð hlutina í öðru ljósi."

„Allt svona gerist nánast samtímis. Ég ætla ekki að segja nöfnin en ég var búinn að tala við nokkra aðila, þar á meðal Óla (Kristjáns). Auðvitað ákveður maður ekki svona, eins og að endurnýja ekki samninginn... Við Heimir erum ekki sammála, það var gluggi í samningnum, ég gat ekki gert þetta fyrr. Á móti hefði hann getað ákveðið að fara. Þá hefði ég verið í hans stöðu, allir búnir að ráða sig í störf. Þetta er uppákoma sem menn þurfa að skoða svo þetta gerist ekki aftur. Þegar þú gerir samninga þá eru allir í góðri trú og þú ert ekkert endilega að hugsa um hvað gerist ef menn verða ekki sáttir."

„Þetta er ein ákvörðun sem ég er orðinn nógu þroskaður til að segja að ég sé eftir. Svo er önnur sem kannski menn hefðu ekki grunað að ég sjái eftir. Ég sé ennþá eftir því að hafa ekki endurnýjað við Gulla markmann á sínum tíma. Ég mat það rangt."


Önnur umdeild ákvörðun var að framlengja ekki við markvörðinn Gunnleif Gunnleifsson á sínum tíma. Gunnleifur var að mörgum talinn besti markvörður deildarinnar, var í landsliðinu en FH vildi einungis gera eins árs samning. Gulla bauðst lengri samningur annars staðar og samdi við Breiðablik. FH var með þá reglu að samið yrði einungis til eins árs við leikmenn sem væru komnir yfir þrítugt.

„Settu reglu sem þú ert örugglega tilbúinn að beygja," sagði Jón Rúnar. „Þarna lét ég regluna ráða yfir tilfinningunni og ég sé eftir því."

Gulli var hjá FH tímabilin 2010-2012. Hann var 37 ára þegar hann fór til Breiðabliks, samdi fyrst út tímabilið 2015 en hélt áfram eftir það og var aðalmarkvörður liðsins út tímabilið 2019.

Félagið að ná áttum
Jón Rúnar var spurður út í FH og litið til baka hvaða áhrif það hafði á félagið að hafa látið Heimi fara.

„Þetta er eins og að lenda í árekstri, þú vankast. Sé það þannig að þú brotnar ekki og farir ekki verr út úr því þá byrjarðu að rjátla við og ná áttum. Ég held að við séum að gera það núna. Það að detta svona niður eins og við gerðum, við vorum við það að verða fyrir andlegu áfalli en fallhlífin opnaðist rétt áður en við lentum þannig það varð ekki slys. Síðan þurfa menn að ná áttum. Okkar félagsmenn og okkar stuðningsmenn þurfa að hafa trú á verkefninu. Við röflum oft yfir því að fólk hætti að mæta þegar gengur illa, en það er skiljanlegt. Það er erfitt að horfa á félagið sitt tapa ef það er orðin meiri regla en hitt. Ég held við séum að byggja upp núna. Ég hef ofurtrú á því að við verðum á þeim stað sem við eigum að vera innan ekki svo langs tíma. Ég er ekki að tala í mörgum árum."

Hann talar þarna um fallhlífina sem er sú staðreynd að FH rétt bjargaði sér frá falli úr Bestu deildinni haustið 2022. Í kjölfarið var svo Heimir aftur ráðinn til félagsins. Í fyrra endaði FH í 5. sæti deildarinnar og liðið hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjunum á þessu tímabili.


Athugasemdir
banner
banner
banner