Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
   lau 04. maí 2024 23:37
Brynjar Ingi Erluson
Möguleiki á að Greenwood taki annað tímabil með Getafe
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Spænska félagið Getafe hefur hafið viðræður við Manchester United um enska sóknarmanninn Mason Greenwood en það vill fá hann á láni í eitt ár til viðbótar. Þetta kemur fram í Athletic.

Greenwood, sem er 22 ára gamall, kom til Getafe á láni fyrir síðasta tímabil.

Hann hefur komið að sextán mörkum fyrir spænska félagið á þessari leiktíð og var á dögunum tilnefndur í lið ársins í La Liga.

Athletic greinir frá því að Getafe hafi nú hafið viðræður við United, með það í huga að halda honum á láni út næstu leiktíð.

Viðræður eru á byrjunarstigi en Greenwood verður líklega með nokkur tilboð í höndunum í sumar. Atlético Madríd, Barcelona og Juventus eru öll sögð áhugasöm.

Ólíklegt er að Greenwood spili aftur fyrir Manchester United en Sir Jim Ratcliffe, nýr hluteigandi félagsins, hefur þó ekki útilokað þann möguleika.

Englendingurinn var handtekinn í ársbyrjun 2022 eftir að kærasta hans, Harriet Robson, deildi myndum og myndböndum af áverkum sínum, sem hún sagði vera af hendi Greenwood. Þá birti hún einnig hljóðupptöku, þar sem Greenwood virðist þvinga hana til samræðis.

Málið gegn Greenwood var fellt niður á síðasta ári. Athletic greindi í ágúst frá því að United væri búið að taka ákvörðun um að taka Greenwood aftur inn í hópinn, en hætti við eftir slæm viðbrögð frá samfélaginu og var hann því sendur á láni til Getafe.
Athugasemdir
banner