Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   mán 06. maí 2024 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Keane: Haaland hagaði sér eins og ofdekraður krakki
Erling Braut Haaland
Erling Braut Haaland
Mynd: Getty Images
Roy Keane
Roy Keane
Mynd: Getty Images
Sparkspekingurinn og fyrrum leikmaðurinn Roy Keane virðist ekki vera hrifinn af Erling Braut Haaland en hann talaði um Norðmanninn á Sky Sports í gær.

Í mars sagði Keane að Haaland liti út eins og D-deildar leikmaður, en nokkrum vikum seinna var framherjinn kominn upp um tvær deildir hjá fyrrum United-manninum.

Sagði hann meðal annars að Haaland væri ekkert annað en markaskorari. Hann tæki ekki mikinn þátt í uppspili og það væri að hafa áhrif á leik Man City.

Haaland skoraði fjögur mörk um helgina og var spurður í viðtali út í gagnrýni Keane, en þá sagði Haaland að honum væri eiginlega bara alveg sama um þann mann.

Það hefur farið eitthvað vitlaust ofan í Keane sem var spurður út í atvik sem átti sér stað þegar Haaland var skipt af velli í leiknum.

Haaland var tekinn af velli á 82. mínútu og var hann ekki sáttur með það. Fjögur mörk var ekki nóg og er það eitthvað sem Pep Guardiola, stjóri Man City, ætti að fagna, að Haaland vilji meira.

„Við sáum Haaland í gær þegar hann var tekinn af velli. Hann hagaði sér eins og ofdekraður krakki. Þegar þeir vinna leiki og hann skorar mörk þá er þetta nokkurn veginn gleymt og grafið,“ sagði Keane.

Dave Jones, þáttastjórnandi Super Sunday spurði Keane í gríni hvort það væri ekki í lagi að haga sér svona fyrst hann skoraði fjögur mörk, en Keane var ekki beint skemmt.

„Nei, í raun ekki. Þetta er ekki í lagi,“ sagði Keane enn fremur.

Gagnrýni Keane er farin að minna á Graeme Souness og hans gagnrýni á franska miðjumanninum Paul Pogba. Þegar Souness var í setti hjá Sky nýtti hann hvert einasta tækifæri til að skjóta á Pogba og gekk það svo langt að það var að farandbrandara þegar það þurfti að kenna einhverjum um slakt gengi United.
Athugasemdir
banner
banner
banner