Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   mið 08. maí 2024 14:15
Elvar Geir Magnússon
Malasískur landsliðsmaður í alvarlegu ástandi eftir sýruárás
Faisal Halim hefur skorað 15 mörk í 32 landsleikjum fyrir Malasíu.
Faisal Halim hefur skorað 15 mörk í 32 landsleikjum fyrir Malasíu.
Mynd: Getty Images
Faisal Halim eftir að hann varð fyrir árásinni.
Faisal Halim eftir að hann varð fyrir árásinni.
Mynd: Skáskot
Malasíski landsliðsmaðurinn Faisal Halim er í alvarlegu ástandi eftir að hafa orðið fyrir sýruárás fyrir utan verslunarmiðstöð í höfuðborginni Kúala Lúmpúr.

Ráðist hefur verið á þrjá landsliðsmenn Malasíu síðustu vikur. Óvíst er hvort árásirnar tengist en fólk er óttaslegið og leikmenn hræddir um öryggi sitt.

Halim er gríðarlega vinsæll í Malasíu enda einn helsti markaskorari landsins. Skyndilega kom upp að honum maður á sunnudaginn sem sagði 'Gangi þér vel' og skvetti á hann sýru með þeim afleiðingum að hann hlaut alvarleg brunasár. Árásarmaðurinn gengur laus og ekki er vitað hver ástæðan var fyrir verknaðnum.

Halim er 26 ára en árásin gæti bundið enda á feril hans. Samkvæmt fréttatilkynningu frá malasíska fótboltasambandinu er hann í alvarlegu en stöðugu ástandi, hreyfigeta hans er skert og hann á erfitt með að tala.

Hann hlaut sár í andliti, hálsi, öxlum, höndum og bringu. Vinstri hlið líkamans er sérstaklega illa farinn og hann finnur ekki fyrir vinstri höndinni. Hann þarf að gangast undir að minnsta kosti tvær aðgerðir til viðbótar.

Halim er leikmaður Selangor í heimalandi sínu og fyrir þremur mánuðum fór hann á kostum í Asíubikarnum þar sem hann skoraði stórglæsilegt mark gegn Suður-Kóreu.

Öryggi fótboltamanna ógnað
Þrjár árásir hafa verið gerðar á fótboltamenn í Malasíu undanfarnar vikur. Ýmsar kenningar eru á samfélagsmiðlum; meðal annars um að árásirnar tengist veðmálastarfssemi eða hagræðingu úrslita.

Hinn 25 ára gamli Akhyar Rashid varð fyrir vopnuðu ráni eftir æfingu í síðustu viku. Árásarmennirnir voru grímuklæddir og beittu járnröri með þeim afleiðingum að sauma þurfti spor í höfuð og fótlegg hans.

Safiq Rahim fyrrum landsliðsfyrirliði Malasíu varð svo fyrir árás í gær en slapp við meiðsli. Fótboltamönnum í landinu hefur verið sagt að fara varlega og jafnvel ráðlagt að ráða sér lífverði.
Athugasemdir
banner
banner