Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   mið 08. maí 2024 21:04
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Varamaðurinn Joselu skoraði tvö í lokin og kom Real Madrid í úrslit
Real Madrid getur unnið Meistaradeildina í fimmtánda sinn
Real Madrid getur unnið Meistaradeildina í fimmtánda sinn
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Joselu fagnar fyrra marki sínu
Joselu fagnar fyrra marki sínu
Mynd: Getty Images
Real Madrid 2 - 1 Bayern (4-3, samanlagt)
0-1 Alphonso Davies ('68 )
1-1 Joselu ('88 )
2-1 Joselu ('90 )

Real Madrid mætir Borussia Dortmund í úrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa unnið dramatískan 2-1 sigur á Bayern München á Santiago Bernabeu í kvöld.

Liðin skildu jöfn, 2-2, í spennandi leik í München í síðustu viku og var því von á öðrum spennu leik í kvöld.

Vinicius Junior var nálægt því að koma Madrídingum í forystu á 14. mínútu en skot hans hafnaði í stöng áður en Manuel Neuer náði að verja frákastið frá Rodrygo.

Serge Gnabry, leikmaður Bayern, meiddist og þurfti að fara af velli á 27. mínútu. Alphonso Davies kom inn í hans stað.

Harry Kane kom sér í ágætis færi tveimur mínútum síðar eftir sendingu Joshua Kimmich. Kane tók skotið en Andriy Lunin náði að verja aftur fyrir endamörk.

Undir lok hálfleiksins varði Manuel Neuer frábærlega fyrirgjöf Vinicius sem var ætluð Rodrygo. Sá síðarnefndi náði ekki til boltans og endaði fyrirgjöf Vinicius sem fínasta skot en Neuer vel á verði í markinu.

Vinicius var gríðarlega ógnandi í leiknum. Alltaf þegar hann fékk boltann var hætta og Kimmich í stökustu vandræðum með að halda honum í skefjum.

Madrídingar fengu aukaspyrnu á 60. mínútu leiksins sem Rodrygo tók. Boltinn yfir vegginn en Neuer með aðra geggjaða vörslu. Sá átti stórleik á Bernabeu.

Bayern tókst að refsa Madrídingum fyrir öll þessi klúður og var það varamaðurinn Davies sem gerði markið. Davies var með boltann vinstra megin við teiginn, setti boltann á hægri og þrumaði honum í fjærhornið. Óverjandi fyrir Lunin í markinu.

Real Madrid svaraði strax. Heimamenn fengu hornspyrnu og var það Nacho sem kom boltanum í netið. Joshua Kimmich lá eftir í grasinu eftir viðskipti sín við Nacho.

Dómari leiksins skoðaði atvikið á VAR-skjánum og þar sást augljóst brot á Nacho sem setti hendur sínar utan um höfuð Kimmich áður en hann fleygði honum í grasið. Markið dæmt af og Bayern enn í forystu.

Spænski sóknarmaðurinn Joselu kom inn á sem varamaður á 81. mínútu og breytti sú skipting öllu.

Joselu skoraði jöfnunarmarkið á 88. mínútu. Það mark skráist alfarið sem mistök á Manuel Neuer sem hélt ekki skoti Vinicius Junior. Boltinn datt fyrir Joselu sem skaut honum í netið.

Aðeins tveimur mínútum síðar gerði hann sigurmarkið í leiknum en það kom eftir hornspyrnu.

Bayern hreinsaði frá og hélt Real Madrid boltanum lifandi. Hann var færður út á Antonio Rüdiger sem var vinstra megin í teignum og kom þýski varnarmaðurinn með góða sendingu fyrir markið þar sem Joselu var einn og óvaldaður. Hann skoraði örugglega og fleytti Madrídingum í úrslitin.

Joselu, sem er 34 ára gamall, var fenginn til Real Madrid á síðasta ári til að auka breiddina í sóknarlínunni. Hann átti að vera í aukahlutverki, sem hann hefur vissulega verið, en sá var í aðalhlutverki í kvöld. Nú kominn með fimm mörk í Meistaradeildinni og 16 mörk í öllum keppnum á tímabilinu.

Á síðustu sekúndum leiksins kom Matthijs De Ligt boltanum í netið eftir sendingu Noussair Mazraoui. Markið var dæmt af vegna rangstöðu á Mazraoui en sá dómur var ansi umdeildur enda virtist hann ekki fyrir innan. Þar sem dómarinn flautaði áður en De Ligt setti boltann í netið gat VAR ekkert gert.

Svekkjandi endir fyrir Bayern en engu að síður mögnuð endurkoma Real Madrid sem á nú möguleika á að vinna keppnina í fimmtánda sinn. Madrídingar mæta Borussia Dortmund á Wembley þann 1. júní næstkomandi. Dortmund hefur aðeins unnið keppnina einu sinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner