Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   fim 09. maí 2024 18:06
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: 16 ára skoraði í sigri Tindastóls á Fylki - Sandra María hetjan í Víkinni
Hin 16 ára gamla Elísa Bríet skoraði fyrsta mark sitt í efstu deild
Hin 16 ára gamla Elísa Bríet skoraði fyrsta mark sitt í efstu deild
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandra María Jessen skoraði áttunda deildarmark sitt og lagði þá upp annað í leiknum
Sandra María Jessen skoraði áttunda deildarmark sitt og lagði þá upp annað í leiknum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Norðanliðin Tindastól og Þór/KA fögnuðu sigrum í 4. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Hin 16 ára gamla Elísa Bríet Björnsdóttir skoraði í 3-0 sigri Tindastóls á Fylki á meðan Sandra María jessen skoraði áttunda mark sitt í 2-1 sigri Þórs/KA á Víkingi.

Þór/KA gerði sér góða ferð í Víkina. Gestirnir byrjuðu illa en Shaina Faiena Ashouri kom Víkingum í 1-0 á 5. mínútu.

Sigdís Eva Bárðardóttir fékk boltann vinstra megin, fékk nóg pláss til að sækja í teignum, stóð af sér tæklingu og kom boltanum á Shainu sem skoraði.

Gestirnir voru ekki lengi að svara. Birta Guðlaugsdóttir hafði varið skot frá Huldu Ósk Jónsdóttur á 14. mínútu áður en jöfnunarmarkið kom tveimur mínútum síðar.

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir gerði það. Fyrsta sinn á þessu tímabili sem einhver annar leikmaður en Sandra María Jessen skorar fyrir Þór/KA, en hún átti að vísu stoðsendinguna. Komst upp að endamörkum, lagði boltann inn í teiginn. Birta náði ekki til boltanS og var það Ísfold sem kláraði vel.

Víkingar ógnuðu næstu mínútur en náðu ekki að nýta færi sín. Sandra refsaði þeim fyrir það með því að gera sigurmarkið á 29. mínútu með glæsilegu skoti á lofti fyrir utan teig. Áttunda mark hennar í deildinni.

Heimakonur fengu færin til að jafna í þeim síðari en nýtingin var ekki til staðar. Það er því Þór/KA sem fagnar þriðja sigri sínum í röð og er nú með 9 stig eftir fjóra leiki en Víkingur með 4 stig eftir jafn marga leiki.

Tindastóll vann öruggan sigur á Fylki

Tindastóll vann Fylki, 3-0, á Greifavellinum á Akureyri. Ekki var hægt að spila á Sauðárkróksvelli vegna vallaraðstæðna og létu Stólarnir því duga að spila á Akureyri.

Það hentaði þeim ágætlega. Það tók hina 16 ára gömlu Elísu Bríeti Björnsdóttur aðeins tólf mínútur að skora sitt fyrsta mark í efstu deild.

Birgitta Rún Finnbogadóttir vann boltann, kom honum í gegn á Elísu sem skoraði. Vel gert hjá Elísu og merkilegur áfangi hjá henni að gera sitt fyrsta deildarmark.

María Dögg Jóhannesdóttir tvöfaldaði forystuna á markamínútunni í fyrri hálfleik. Laufey Harpa Halldórsdóttir átti langa fyrirgjöf sem Tinna Brá Magnúsdóttir, markvörður Fylkis, kýldi út á Maríu sem þrumaði boltanum í netið. Mikilvægt mark undir lok hálfleiksins.

Fylkiskonur gáfu í undir lok leiks en var síðan skellt aftur niður á jörðina er Laufey Harpa gerði út um leikinn með þriðja markinu. Monica Wilhelm sparkaði boltanum fram völlinn og var það Jordyn Rhodes sem náði að framlengja hann í gegn. Þar var Laufey sem kláraði og færði Stólunum annan sigurinn í röð. Tindastóll með 6 stig en Fylkir með 5 stig eftir fjórar umferðir.

Víkingur R. 1 - 2 Þór/KA
1-0 Shaina Faiena Ashouri ('5 )
1-1 Ísfold Marý Sigtryggsdóttir ('16 )
1-2 Sandra María Jessen ('29 )
Lestu um leikinn

Tindastóll 3 - 0 Fylkir
1-0 Elísa Bríet Björnsdóttir ('12 )
2-0 María Dögg Jóhannesdóttir ('44 )
3-0 Laufey Harpa Halldórsdóttir ('85 )
Lestu um leikinn
Besta-deild kvenna
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 5 5 0 0 16 - 1 +15 15
2.    Valur 5 5 0 0 17 - 6 +11 15
3.    Þór/KA 5 4 0 1 13 - 5 +8 12
4.    Víkingur R. 5 2 1 2 8 - 12 -4 7
5.    Tindastóll 5 2 0 3 6 - 7 -1 6
6.    Stjarnan 5 2 0 3 9 - 14 -5 6
7.    FH 5 2 0 3 5 - 11 -6 6
8.    Fylkir 5 1 2 2 7 - 10 -3 5
9.    Þróttur R. 5 0 1 4 3 - 7 -4 1
10.    Keflavík 5 0 0 5 5 - 16 -11 0
Athugasemdir
banner
banner