Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
banner
   fös 10. maí 2024 10:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Klopp um Nunez: Það eru engar sögur til að ræða
Darwin Nunez og Jurgen Klopp.
Darwin Nunez og Jurgen Klopp.
Mynd: EPA
Það vakti mikla athygli fyrr í þessari viku þegar Darwin Nunez, sóknarmaður Liverpool, eyddi öllu hjá sér tengdu Liverpool á samfélagsmiðlinum Instagram.

Enskir fjölmiðlar töldu að Nunez hefði eytt myndunum þar sem hann hafi fengið leiðinlegar athugasemdir undir þær. Tímabil Nunez hefur verið upp og ofan, en hann hefur farið illa með mörg marktækifæri.

Það að hann tók myndirnar út ýtti líka undir sögur um að hann muni mögulega yfirgefa Liverpool í sumar. Nunez byrjaði á bekknum í sigrinum gegn Tottenham um síðustu helgi og var fyrstur manna út af vellinum eftir leikinn. Hann hefur verið orðaður við Barcelona.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var spurður út í sögurnar á fréttamannafundi í morgun og sagði þá:

„Það eru engar sögur til að ræða. Þær hljóta að koma utan frá því ég veit ekkert um hvað þið eruð að tala."

„Darwin var klárlega ekki ánægður með að klúðra færinu sem hann fékk. Hann hefur verið óheppinn með stöður þar sem hann hefur gert allt rétt en boltinn hefur bara ekki farið inn. Hann er með miklar kröfur á sjálfan sig. Við reynum að hjálpa honum í gegnum þetta en þetta er hluti af því að vera fótboltamaður. Hann er það góður að hann er alltaf að koma sér í þessar stöður."

Klopp er að hætta með Liverpool en hann veit allavega ekki til þess að félagið sé að hugsa um að losa sig við Nunez.
Athugasemdir
banner
banner