Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
banner
   fös 10. maí 2024 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Langt hlé í Kórnum - Kröfðust þess að fá nýjan aðstoðardómara
KH fagnar marki í vetur.
KH fagnar marki í vetur.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
KH fagnar marki.
KH fagnar marki.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Ýmir vann leikinn 5-3.
Ýmir vann leikinn 5-3.
Mynd: Ýmir
Leikur Ýmis og KH í fyrstu umferð 4. deildar karla í gær var stoppaður í um 45 mínútur þar sem talið var nauðsynlegt að skipta um aðstoðardómara.

Aðstoðardómarinn sem byrjaði leikinn er að stíga sín fyrstu skref í dómgæslu og var ekki með allar reglur á hreinu. Hljóp dómarinn til að mynda alla hliðarlínuna en ekki bara þann helming sem hann átti að hlaupa.

Hringt var í KSÍ þegar rúmlega tíu mínútur voru búnar og var það sameiginleg krafa hjá liðunum að skipt yrði um aðstoðardómara í Kórnum. Dómarinn sem um ræðir átti að sjá um þann helming sem KH var að verjast á í fyrri hálfleiknum, en það var alls ekki mikil ánægja hjá Hlíðarendafélaginu með þetta mál.

„Við hefðum viljað fá fyrstu 15 mínúturnar spilaðar aftur. Ég hef eiginlega aldrei séð svona á öllum mínum árum í kringum fótbolta sem er staðfest með því að leikurinn er stöðvaður. Auðvitað skiljum við að allir verða einhvern tímann að eiga sinn fyrsta leik en allir þurfa þó að fá verkefni við hæfi. Það er augljóslega eitthvað sem klikkaði hjá sambandinu við framkvæmd þessa leiks og okkur þótti vinnubrögðin mjög skrítin," segir Hallgrímur Dan Daníelsson, þjálfari KH, við Fótbolta.net.

Það tók í kringum 45 mínútur að fá nýjan dómara á línuna svo leikurinn gæti byrjað aftur. Gunnar Oddur Hafliðason, dómari úr efstu deild, mætti svo og tók við flagginu en þá gat leikurinn byrjað aftur en hann endaði með 5-3 sigri Ýmis.

Hent í djúpu laugina
Magnús Már Jónsson, dómarastjóri KSÍ, segir sambandið manna um 300 dómarastörf á viku og það sé afskaplega flókið verkefni. Málið sem kom upp í gær hafi þó verið einstakt tilfelli.

„Við þurfum alltaf að fjölga dómurum. Í þessu tilfelli var það óreyndur dómari sem fór á leikinn og hann var að taka sinn fyrsta leik. Hann er búinn að sitja námskeið hjá okkur og fá aðstoðardómarafyrirlestur. Hann sagðist hafa spilað í áhugamannadeild í Póllandi og líka spilað hér. Þetta höfum við gert í gegnum tíðina því þetta er svo ótrúlega mikið magn leikja sem við erum að manna," segir Magnús Már.

„Við þurfum oft að henda mönnum í djúpu laugina en því miður gekk það ekki að þessu sinni. Auðvitað hörmum við þetta. Því miður réði hann ekki við verkefnið."

„Við brugðumst við. Hringdum strax og redduðum öðrum manni," segir Magnús Már, en það er ekki auðvelt verkefni að manna þá leiki sem KSÍ sér um að manna í dómaramálum. Alltaf er verið að leitast eftir því að fjölga dómurum.

„Í flestum löndum eru dómaraklúbbar sem eru í ákveðnum héröðum sem sjá um að manna neðri deildirnar. Samböndin eru vanalega kannski með tvær til þrjár karladeildir og kannski tvær kvennadeildir, og svo búið. Við erum með allt. Við erum með sex deildir karlamegin og þrjár deildir kvennamegin. Við erum með 2. flokkinn og erum að manna miklu fleira sem samband en önnur lönd. Stundum þurfum við bara að renna blint í sjóinn en þetta er samt algjörlega einstakt tilfelli, og því miður er það þannig."

Kemur vonandi sterkari til baka
Magnús segir að rætt hafi verið við manninn. Vonandi mun hann sækja sér betri þekkingu og koma sterkari til baka.

„Við töluðum við manninn. Hann ætlar ekki að gefast upp sem er jákvætt. Hann ætlar að reyna að afla sér reynslu hjá sínu heimaliði og taka fyrstu skrefin þar. Það er gott að menn séu ekki brotnir eftir svona uppákomu," segir Magnús og bætti við:

„Það er ótrúlega mikil vinna sem felst í því að halda þessu gangandi. Alveg rosaleg vinna, en sem betur fer fara allir leikirnir fram."

Ekki var hægt að endurbyrja leikinn - eins og KH vildi - samkvæmt knattspyrnulögunum en staðan var 1-0 fyrir Ými þegar skipt var um dómara.

Úrslitin í fyrstu leikjum 4. deildar:
Árborg 5 - 4 KFS
Ýmir 5 - 3 KH
Kría 2 - 1 KÁ
RB 2 - 3 Hamar


Athugasemdir
banner
banner
banner