Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
   fös 10. maí 2024 15:24
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mun taka tíma fyrir mikilvægasta leikmann Stjörnunnar að koma til baka
Anna María Baldursdóttir.
Anna María Baldursdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, var ekki með í síðasta leik liðsins gegn Breiðabliki. Hennar var sárt saknað en Stjarnan tapaði leiknum 5-1.

Anna María fékk höfuðhögg í leiknum gegn Tindastóli í þriðju umferð og var þess vegna ekki með.

„Hún fór í endurskoðun í dag og mér skilst að hún sé ekki nefbrotin en þurfi að koma rólega til baka. Hún datt út í leiknum og það mun taka einhvern tíma fyrir hana að koma til baka," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn gegn Breiðabliki.

Anna María lenti í samstuði við Jordyn Rhodes, leikmann Tindastóls, undir lokin á leik liðanna í síðustu viku. Miðvörðurinn missti meðvitund um stund og fór blóðug af velli.

„Það var ráðist á hana inn í okkar vítateig og það var ekki einu sinni gefin áminning né aukaspyrna. Það sama gerðist nokkru áður þegar ráðist var á markvörðinn okkar og ekki var gefin áminning þá heldur," sagði Kristján eftir leikinn gegn Tindastóli.

Anna María er líklega mikilvægasti leikmaður Stjörnunnar en liðið þrjú stig eftir fjóra leiki og er í áttunda sæti. Næsti leikur Stjörnunnar er heimaleikur gegn FH næstkomandi þriðjudag.
Kristján svekktur: Ætla ekki að trúa því að þetta komi fyrir aftur
Athugasemdir
banner
banner
banner