Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
   þri 22. ágúst 2023 15:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Dalvíkingar upp um tvær deildir á tveimur árum? - „Besti hópur sem ég hef verið í"
Þröstur Mikael Jónasson, fyrirliði Dalvíkur/Reynis.
Þröstur Mikael Jónasson, fyrirliði Dalvíkur/Reynis.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Dragan Stojanovic, þjálfari Dalvíkur/Reynis.
Dragan Stojanovic, þjálfari Dalvíkur/Reynis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áki Sölvason er búinn að skora tíu mörk í sumar.
Áki Sölvason er búinn að skora tíu mörk í sumar.
Mynd: Dalvík/Reynir
Dalvík fagnar marki í sumar.
Dalvík fagnar marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Sumarið hefur bara verið frábært, alveg upp á tíu," segir Þröstur Mikael Jónasson, fyrirliði Dalvíkur/Reynis, í samtali við Fótbolta.net.

Dalvíkingar hafa komið mikið á óvart í sumar en liðið er sem stendur á toppi 2. deildar þegar fjórar umferðir eru eftir. Dalvík/Reynir komst upp úr 3. deild í fyrra eftir að hafa endað í öðru sæti þar. Núna eru góðar líkur á því að liðið fljúgi beint upp í Lengjudeildina sem væri mikið afrek.

„Það er magnað, það er mun skemmtilegra að vera í toppbaráttu en í botnbaráttu," segir Þröstur. „Við vorum pínu 'sloppy' og óheppnir í byrjun móts en síðan hefur allt tikkað. Það hefur gengið mjög vel."

Dragan komið vel inn í þetta og hópurinn mjög góður
Hinn reynslumikli Dragan Stojanovic stýrir skútunni á Dalvík. Hann tók við liðinu eftir að þeir komust upp á síðasta ári. Hann hefur þjálfað fjölda liða, þar á meðal Þór, Völsung, KF og Fjarðabyggð.

„Ég myndi segja að það væri mikill munur á þessum tveimur deildum - 2. deild og 3. deild - en Dragan hefur komið vel inn í þetta sem þjálfari og svo erum við bara með mjög góðan hóp. Það verður að gefa Dragan hrós fyrir það sem hann hefur gert, hann hefur byggt upp mjög gott lið. Hann er hörkuþjálfari og hefur komið sterkur inn í þetta. Það hefur komið inn meiri agi með honum og hann stendur fast á sínu sem er gott."

„Enn sem komið er, þá er þetta skemmtilegasta tímabil sem ég hef spilað og besti hópur sem ég hef verið í. Þetta er drullugaman. Liðsheildin er frábær, það eru mikil gæði og það vita allir sín hlutverk í liðinu og menn eru að sinna þeim vel."

Dalvík/Reynir var fyrir tímabil spáð um miðja deild, sjöunda sæti. En liðið er núna með 35 stig á toppnum, með fjórum stigum meira en liðið sem er í þriðja sæti.

„Maður sá það kannski ekki endilega á undirbúningstímabilinu að þetta myndi fara svona. Það tók smá tíma fyrir Dragan að koma hugmyndum sínum inn í hausinn á okkur. Svo er það líka þannig að það koma inn leikmenn rétt fyrir mót. Það er erfitt að sjá það í febrúar og mars hvernig tímabilið verður."

Eiginlega bara fáránlegt
Dalvíkingar fengu nokkra leikmenn inn fyrir tímabil en líklega var það stærst að Áki Sölvason kom frá KA. Hann hefur sýnt það og sannað að hann er öflugur markaskorari í þessari deild.

„Áki er nákvæmlega það sem við þurftum, hann er alvöru markaskorari. Innan sem utan vallar er hann geggjaður gæi."

Liðið vann síðasta leik sinn gegn Þrótti Vogum, 3-1 á heimavelli. Þetta var magnaður sigur í ljósi þess að Borja Lopez Laguna fékk rauða spjaldið á 23. mínútu. Á þeim tímapunkti var Þróttur 0-1 yfir en heimamenn sneru leiknum við og unnu leikinn.

„Það var eiginlega bara fáránlegt," segir Þröstur um leikinn. „Við lentum 1-0 undir og svo fær Borja rautt spjald. Ég var persónulega ekkert bjartsýnn að þetta myndi fara svona en það stigu allir bara upp. Ég hef aldrei spilað svona leik á öllum mínum ferli. Þetta var mjög sérstakt. Það spiluðu allir yfir getu eftir að Borja fékk rauða spjaldið. Ég held að þetta hafi sýnt sig nákvæmlega þarna hversu sterkur hópurinn og liðsandinn er."

Aldrei upplifað svona mikinn stuðning
Heimavöllurinn hefur verið sterkur fyrir Dalvíkurliðið, sem er með besta heimavallarárangurinn í sumar. Ástríðan, hlaðvarpsþáttur sem fjallar um 2. og 3. deild, sagði í umfjöllun sinni fyrir tímabil að heimavöllurinn yrði styrkleiki og það hefur sannarlega reynst rétt. Stuðningurinn hefur verið gríðarlega góður við liðið.

„Ég hef aldrei upplifað svona mikinn stuðning á Dalvík. Menn eru alltaf tilbúnir að spjalla og ræða boltann. Það er mjög gaman þegar það gengur svona vel að geta spjallað við fólkið í samfélaginu. Það gerir mikið fyrir mann að sjá hvað við gerum í rauninni mikið fyrir þau, hvað þetta skiptir miklu máli fyrir fólkið," segir Þröstur.

„Það hefur hjálpað mikið að fá góðan stuðning, maður finnur fyrir honum. Við höfum bara tapað einum leik á heimavelli í sumar og það kemur mér ekkert á óvart að við séum með góðan heimavallarárangur. Umgjörðin fyrir alla leiki er góð og fólkið sem kemur að þessu hefur verið að standa sig þrusuvel. Það væri gaman að taka tímabil þar, sérstaklega með aðstöðuna sem er komin upp hérna og með stuðninginn sem við höfum."

„Framhaldið leggst bara vel í okkur. Það er alltaf næsti leikur sem er mikilvægastur, það er bara svoleiðis," sagði fyrirliðinn en næsti leikur Dalvíkur/Reynis er gegn KV, botnliði deildarinnar, á útivelli á laugardaginn.
Ástríðan 18. umferð - Og þá voru þau fimm
Athugasemdir
banner
banner