Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   mán 06. maí 2024 12:12
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Emil kominn á blað - „Hann þarf ekki að skora fyrir mig, ekki mín vegna"
Emil með skallann.
Emil með skallann.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Róbert Frosti sáttur.
Róbert Frosti sáttur.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Emil Atlason, markakóngur síðasta tímabils í Bestu deildinni, kom sér á blað í gær þegar hann skoraði jöfnunarmark Stjörnunnar gegn ÍA.

Markið skoraði hann á 28. mínútu eftir undirbúning frá Jóhanni Árna Gunnarssyni.

Lestu um leikinn: Stjarnan 4 -  1 ÍA

„Fyrsta markið á þessu tímabili!! Andri Adolphs fær boltann úti á hægri kanti og leggur boltann aðeins inn á völl þar sem Jóhann Árni er. Jóhann kemur svo með háan og fallegan bolta inn í teig þar sem haförninn Emil rís upp og stangar boltan í netið," skrifaði Haraldur Örn Haraldsson í textalýsingu frá leiknum.

Margir spáðu Emil áframhaldandi velgengni í sumar eftir að hafa raðað inn mörkum í fyrra. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir spilamennsku sína og formið í fyrstu umferðunum.

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var spurður hvort hann héldi að í tómatsósuáhrifin myndu eiga við í tilviki Emils og það muni koma mörk á færibandi eftir þetta fyrsta mark hans.

„Ég veit það ekki, mér er eiginlega bara alveg sama. Það er fínt ef hann skorar mörk en hlutverkið hans er bara að hjálpa liðinu, og hann er búinn að gera það mjög vel þó hann sé ekki búinn að skora. Þá er hann búinn að láta aðra leikmenn líta vel út, búinn að búa til pláss og bara góðar stöður fyrir þá. Hann er búinn að eiga þátt í einhverjum mörkum og ég er bara búinn að vera mjög ánægður með hann hingað til. Hann þarf ekki að skora fyrir mig, ekki mín vegna," sagði Jökull.

Finnst þér ekki mikið varið í gagnrýnina sem hann hefur fengið?

„Ég skil alveg að senter sé gagnrýndur ef hann skorar ekki, og það er bara frábært að fólk hafi skoðanir og álit á því sem við erum að gera, það er bara geggjað. Þetta er bara ekki stórt atriði fyrir mér og okkur," sagði Jökull.

Emil var ekki eini Stjörnumaðurinn sem kom sér á blað í gær því Róbert Frosti Þorkelsson var einnig að skora sitt fyrsta mark í sumar og Óli Valur Ómarsson kom sér einnig á blað. Fjórði markaskorarinn, Guðmundur Baldvin Nökkvason, er markahæsti leikmaður liðsins í öllum keppnum, nú með alls þrjú mörk skoruð í deild og bikar. Mörkin má sjá hér að neðan.

Jökull: Gaman að geta gefið stuðningsmönnum skemmtilegri leik
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner