Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   mán 06. maí 2024 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jón Guðni verður í byrjunarliðinu gegn FH
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Jón Guðni Fjóluson mun, ef allt gengur eftir, næsta sunnudag spila sinn fyrsta leik í tvö og hálft ár. Arnar Gunnlaugsson nefndi það fyrr á tímabilinu að búið væri að eyrnamerkja leikinn gegn FH Jóni Guðna og þegar Fótbolti.net ræddi við Arnar í dag þá staðfesti hann að Jón myndi byrja leikinn sem fram fer á Víkingsvelli á sunnudag.

„Hann er að fara byrja leikinn á móti FH, ekki flóknara en það," sagði Arnar.

„Hann er búinn að vita af því í tvo mánuði. Þetta er fyrsti leikurinn hans í rúmlega tvö ár. Þó að hann sé mjög reynslumikill þá mun þetta reyna á taugarnar. Þannig á þetta líka að vera. Þetta á að vera spennandi og hann mun gera mistök en hann er að koma inn í gott lið og hann mun færa okkur mikið, kemur með leiðtogahæfileika og auðvitað fótboltahæfileika inn í okkar lið," sagði þjálfarinn.

Jón Guðni varð í síðasta mánuði 35 ára gamall. Hann meiddist illa haustið 2021 og hefur frá þeim tímapunkti ekki spilað leik. Hann samdi við Víking í vetur þegar samningur hans við sænska félagið Hammarby rann út. Hann á að baki átján leiki fyrir A-landsliðið.
Athugasemdir
banner
banner
banner