
Hinn 17 ára gamli Daníel Freyr Kristjánsson ræddi við Fótbolta.net fyrir æfingu U19 landsliðsins í dag. Strákarnir eru að taka þátt í lokakeppni Evrópumótsins en á morgun spila þeir sinn annan leik í mótinu er þeir mæta Noregi.
Daníel er einn af fáum leikmönnum liðsins á þessu móti sem spila erlendis. Daníel er örvfættur leikmaður, að upplagi kantmaður, sem keyptur var til danska félagsins Midtjylland frá uppeldisfélaginu Stjörnunni síðasta sumar.
Hann hefur verið að leysa stöðu vinstri bakvarðar í Midtjylland og er búinn að vera að raða inn stoðsendingum þar.
„Ég spila meira bakvörðinn núna," segir Daníel og segir það líklega stöðu sína til framtíðar. „Ég er nánast bara bakvörður úti," bætir hann við.
Líkt og fyrr kemur fram þá er Daníel uppalinn Stjörnumaður. Í hópnum eru fimm núverandi leikmenn Garðarbæjarfélagsins.
„Það er geggjað að hitta þá alltaf aftur í öllum landsliðsverkefnum, að vera með þeim og tala íslensku aftur. Auðvitað er það alltaf gaman," segir Daníel en hann og Róbert Máni Þorkelsson verja miklum tíma saman, eru bestu vinir. Þorkell Máni Pétursson, faðir Róberts Frosta, sagði frá þessu á dögunum.
„Það er alltaf svoleiðis, við tveir saman í herbergi og við verjum miklum tíma saman. Það er bara mjög gaman," sagði Daníel en hann er spenntur fyrir leiknum á móti Noregi á morgun.
„Við erum vel stemmdir og við þurfum bara að ná í sigur, það er ekkert annað í boði."
Leikur Íslands og Noregs hefst klukkan 19:00 á morgun en hann verður auðvitað í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net. Hann er einnig sýndur á RÚV.
Athugasemdir