Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   þri 07. maí 2024 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: Tipsbladet 
Fyrrum þjálfari Orra: Getur verið algjörlega klikkaður
Mynd: Getty Images
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Orri Steinn Óskarsson lét til sín taka í dönsku deildinni síðustu helgina í apríl þegar hann kom inn af bekknum og skoraði þrennu í 3-2 sigri FC Kaupmannahafnar gegn AGF.

Orri Steinn er ekki með fast sæti í byrjunarliðinu hjá FCK en hann var í byrjunarliðinu í 0-3 sigri gegn Silkeborg um síðustu helgi. Kaupmannahöfn er í öðru sæti dönsku deildarinnar sem stendur, einu stigi á eftir toppliði Bröndby þegar fjórar umferðir eru eftir af deildartímabilinu.

Orri er aðeins 19 ára gamall og á ekki nema eitt ár eftir af samningi sínum við FCK. Það er ljóst að ýmis félög hafa áhuga á honum og hefur Thomas Norgaard, hans fyrrum þjálfari, ekkert nema gott að segja um táninginn.

Orri lék á láni hjá SönderjyskE í næstefstu deild danska boltans á síðustu leiktíð og skoraði þar 5 mörk í 14 leikjum, auk þess að gefa eina stoðsendingu. Thomas Nörgaard er fyrrum þjálfari hans hjá Sönderjyske og tjáði sig um Orra í viðtali á dögunum.

„Að mínu mati þá hefur hann allt sem þarf til þess að verða að topp framherja. Hann er auðvitað að spila hjá stóru félagi þar sem er mikil samkeppni um byrjunarliðssæti og erfitt að fá mikið af mínútum, en það er staðreynd að hann er frábær að klára færi og getur verið algjörlega klikkaður á köflum. Hann er mjög klár fótboltamaður og hefur allt sem þarf til að ná langt," sagði Nörgaard í spjalli á sjónvarpsstöð Viaplay í Danmörku.

Orri er búinn að skora 12 mörk og gefa 7 stoðsendingar í 36 leikjum á yfirstandandi tímabili, sem gerir hann að markahæsta leikmanni FCK.
Athugasemdir
banner
banner
banner