Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   mið 08. maí 2024 20:11
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Blikar pökkuðu Stjörnunni saman í fyrri hálfleik - Endurkoma hjá Val
Blikar fóru illa með Stjörnuna
Blikar fóru illa með Stjörnuna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nadía Atladóttir skoraði sigurmark Vals
Nadía Atladóttir skoraði sigurmark Vals
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Breukelen Woodard skoraði sigurmark FH á lokasekúndum leiksins
Breukelen Woodard skoraði sigurmark FH á lokasekúndum leiksins
Mynd: FH
Breiðablik og Valur unnu bæði í 4. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld á meðan FH vann þá dramatískan 1-0 sigur á Þrótti í Kaplakrika, þar sem tveir leikmenn fengu að líta rauða spjaldið.

Blikar unnu sannfærandi 5-1 sigur á Stjörnunni á Kópavogsvelli þar sem öll mörk leiksins voru skoruð í fyrri hálfleik.

Það tók Öglu Maríu Albertsdóttur ekki nema tæpar tvær mínútur að koma Blikum á bragðið. Blikar náðu að stinga sér inn fyrir vörnina og var það Birta Georgsdóttir sem kom lagði upp fyrir Öglu sem setti boltann í netið.

Tveimur mínútum síðar gerði Andrea Rut annað markið með frábæru skoti fyrir utan teig. Stjarnan svaraði strax með öðru langskoti sem Gyða Kristín Gunnarsdóttir tók og hafnaði boltinn í netinu.

Ótrúleg byrjun á leiknum. Blikar tóku yfir eftir mark Stjörnunnar og gerðu í raun út um leikinn í fyrri hálfleiknum. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði eftir klaufagang í teignum, hennar sjötta mark á tímabilinu.

Leikurinn var alger einstefna á þessum tímapunkti. Þær héldu áfram að sækja á gestina og kom fjórða markið á 33. mínútu er Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving varði skot Andreu fyrir Birtu, sem hirti frákastið og skoraði.

Agla María gerði út um leikinn með öðru marki sínu í leiknum á 38. mínútu. Fékk boltann hægra megin, dró sig inn á völlinn og hamraði honum fyrir utan teig. Glæsilegt mark hjá Blikanum.

Blikar létu sér nægja þessi fimm mörk í fyrri hálfleiknum því síðari hálfleikurinn var töluvert rólegri en sá fyrri. Katrín Ásbjörnsdóttir og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir snéru aftur með Blikum, en Katrín hefur verið að glíma við meiðsli á meðan Ólöf var í námi erlendis.

Flottur 5-1 sigur hjá Blikum sem eru á toppnum með 12 stig, eins og Valur sem vann 2-1 endurkomusigur á Keflavík á HS Orku-vellinum í Keflavík.

Valskonur byrjuðu leikinn betur með nokkrum úrvalsfærum áður en heimakonur fundu taktinn.

Keflvíkingar komust yfir í leiknum með algeru slysamarki. Elfa Karen Magnúsdóttir var í þröngri stöðu en náði að koma boltanum fyrir markið. Fanney Inga Birkisdóttir virtist misreikna boltann eitthvað í markinu og endaði á að koma honum sjálf yfir marklínuna.

Staðan 1-0 í hálfleik og sanngjarnt miðað við gang mála en meistararnir náðu að endurstilla sig í hálfleiknum og klára þetta í þeim síðari.

Fanndís Friðriksdóttir jafnaði metin á 55. mínútu. Valur fékk hornspyrnu sem var hreinsuð út á Fanndísi sem stóð við D-bogann. Hún átti skot, sem var alls ekki svo fast, en það lak alla leið út við stöng og í netið.

Nadía Atladóttir gerði sigurmarkið nokkrum mínútum síðar eftir góða sókn. Katie Cousins sá Nadíu taka utanáhlaupið, lagði boltann á Nadíu sem skoraði með laglegu skoti. Tvö mörk í síðustu tveimur leikjum hjá Nadíu.

Keflvíkingar náðu að vinna sig aðeins betur inn í leikinn eftir þetta en fundu ekki jöfnunarmarkið sem þær voru að leita að.

Undir lok fékk Berglind Björg Þorvaldsdóttir dauðafæri til að gera út um leikinn en fór illa með það. Hún var að spila sínar fyrstu mínútur með Val síðan hún kom frá Paris Saint-Germain.

Lokatölur 1-0 fyrir Val sem er með fullt hús stiga eins og Breiðablik, en Keflavík er áfram án stiga á botninum.

Tvö rauð og dramatískt sigurmark í Hafnarfirði

FH vann annan leik sinn í deildini er það lagði Þrótt að velli, 1-0, í Kaplakrika í kvöld.

Þrótttarar voru með öll völd á fyrri hálfleiknum og alger ráðgáta að liðið hafi ekki skorað. Það skapaði sér svo mörg góð færi en Aldís Guðlaugsdóttir var að verja vel og þá tókst FH-ingum í eitt skiptið að bjarga á línu.

Snemma í síðari hálfleik átti Kristrún Rut Antonsdóttir skalla rétt framhjá markinu eftir fyrirgjöf frá Caroline Murray. Tíu mínútum síðar fékk Lea Björt Kristjánsdóttir, leikmaður Þróttar, beint rautt fyrir að toga Breukelen Woodard, sem var að sleppa í gegn. Lea hafði komið inn á sem varamaður tæpum fimmtán mínútum áður.

FH reyndi að nýta sér liðsmuninn. Liðið var betra en ekki að ná að skapa sér dauðafæri. Ekki batnaði það þegar Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir sá sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að sparka boltanum í burtu eftir að dómarinn flautaði.

Sex mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og var það nóg fyrir FH til að skora dramatískt sigurmark. FH-ingar spiluðu vel sín á milli áður en Woodard fékk boltann og setti hann fram hjá Mollee Swift í markinu og það á lokasekúndum leiksins. Gerist ekki dramatískara en það.

Annar sigur FH í deildinni staðreynd og liðið nú með sex stig en Þróttur sem verðskuldaði líklega meira úr þessum leik er áfram með aðeins eitt stig.

FH 1 - 0 Þróttur R.
1-0 Breukelen Lachelle Woodard ('96 )
Rautt spjald: ,Lea Björt Kristjánsdóttir, Þróttur R. ('66)Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, FH ('89)
Lestu um leikinn

Breiðablik 5 - 1 Stjarnan
1-0 Agla María Albertsdóttir ('2 )
2-0 Andrea Rut Bjarnadóttir ('4 )
2-1 Gyða Kristín Gunnarsdóttir ('5 )
3-1 Vigdís Lilja Kristjánsdóttir ('16 )
4-1 Birta Georgsdóttir ('33 )
5-1 Agla María Albertsdóttir ('38 )
Lestu um leikinn

Keflavík 1 - 2 Valur
1-0 Fanney Inga Birkisdóttir ('35 , sjálfsmark)
1-1 Fanndís Friðriksdóttir ('55 )
1-2 Nadía Atladóttir ('60 )
Lestu um leikinn
Besta-deild kvenna
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 5 5 0 0 16 - 1 +15 15
2.    Valur 5 5 0 0 17 - 6 +11 15
3.    Þór/KA 5 4 0 1 13 - 5 +8 12
4.    Víkingur R. 5 2 1 2 8 - 12 -4 7
5.    Tindastóll 5 2 0 3 6 - 7 -1 6
6.    Stjarnan 5 2 0 3 9 - 14 -5 6
7.    FH 5 2 0 3 5 - 11 -6 6
8.    Fylkir 5 1 2 2 7 - 10 -3 5
9.    Þróttur R. 5 0 1 4 3 - 7 -4 1
10.    Keflavík 5 0 0 5 5 - 16 -11 0
Athugasemdir
banner
banner
banner