Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
   fim 09. maí 2024 21:08
Brynjar Ingi Erluson
Evrópudeildin: Leverkusen getur ekki tapað - Atalanta flaug inn í úrslitaleikinn
Bayer Leverkusen er komið í úrslit
Bayer Leverkusen er komið í úrslit
Mynd: EPA
Atalanta vann Marseille örugglega
Atalanta vann Marseille örugglega
Mynd: EPA
Lærisveinar Xabi Alonso í Bayer Leverkusen eru komnir áfram í úrslit Evrópudeildarinnar eftir að liðið gerði 2-2 jafntefli við Roma á Bay-Arena í Þýskalandi í kvöld. Leverkusen kom enn og aftur til baka eftir að hafa verið undir.

Alonso var nokkuð djarfur í liðsvali sínu, Lukas Hradecky, Florian Wirtz og Victor Boniface voru meðal manna á bekknum gegn Roma á Bay Arena í kvöld.

Leverkusen fékk urmul af færum í leiknum en Mile Svilar, markvörður Roma, var að eiga stórgóðan dag í marki gestanna.

Á 41. mínútu leiksins fengu Rómverjar vítaspyrnu er Jonathan Tah reif í stuttbuxur Sardar Azmoun. Leandro Paredes fór á punktinn og setti hann á mitt markið.

Óvænt forysta Roma sem hafði verið slakari aðilinn fram að markinu.

Roma fékk annað víti þegar rúmur klukkutími var liðinn. Adam Hlozek handlék boltann innan teigs og eftir skoðun VAR þá var bent á punktinn. Paredes skoraði aftur á punktinum og allt stefndi í fyrsta tap Leverkusen á leiktíðinni.

Síðustu vikur hefur Leverkusen verið hársbreidd frá því að tapa leikjum en alltaf tekist að sleppa rétt fyrir horn og er það nákvæmlega það sem átti sér stað í kvöld.

Roma hleypti Leverkusen klaufalega inn í leikinn eftir hornspyrnu sem Mile Svilar tókst ekki að handsama. Boltinn fór í staðinn í andlit Gianluca Mancini og í netið.

Tæp mínúta var eftir af uppbótartímanum er jöfnunarmark Leverkusen kom. Króatinn Josip Stanisic keyrði inn í teiginn hægra megin, setti boltann á vinstri og lagði hann í fjærhornið.

Frábær björgun hjá Leverkusen sem er taplaust í 49 leikjum í röð og örugglega komið áfram í úrslit Evrópudeildarinnar. Ógleymanlegt tímabil sem verður seint toppað.

Leverkusen fer samanlagt áfram, 4-2, og er komið í úrslitaleikinn gegn Atalanta sem vann gríðarlega sannfærandi 3-0 sigur á Marseille í Bergamó.

Ademola Lookman var frábær með mark og stoðsendingu áður en El Bilal Toure gulltryggði sigurinn í uppbótartíma síðari hálfleiks.

Úrslitaleikur Atalanta og Bayer Leverkusen fer fram á Aviva-leikvanginum í Dublin þann 22. maí næstkomandi.

Úrslit og markaskorarar:

Atalanta 3 - 0 Marseille (4-1, samanlagt)
1-0 Ademola Lookman ('30 )
2-0 Matteo Ruggeri ('52 )
3-0 El Bilal Toure ('90 )

Bayer 2 - 2 Roma (4-2, samanlagt)
0-1 Leandro Paredes ('43 , víti)
0-2 Leandro Paredes ('66 , víti)
1-2 Gianluca Mancini ('82 , sjálfsmark)
2-2 Josip Stanisic ('90 )
Athugasemdir
banner
banner
banner