mið 14. nóvember 2018 13:30
Magnús Már Einarsson
Hamren hefur aldrei upplifað annað eins
Icelandair
Erik Hamren og Arnór Sigurðsson á landsliðsæfingu í Brussel í dag.
Erik Hamren og Arnór Sigurðsson á landsliðsæfingu í Brussel í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég hef verið þjálfari í meira en 35 ár en ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt," sagði Erik Hamren landsliðsþjálfari Íslands á fréttamannafundi í dag.

Tíu leikmenn eru fjarri góðu gamni fyrir leikinn gegn Belgíu á morgun vegna meiðsla og þar á meðal eru nokkrir lykilmenn.

Birkir Bjarnason, Birkir Már Sævarsson, Ragnar Sigurðsson, Emil Hallfreðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Jón Daði Böðvarsson, Rúnar Már Sigurjónsson, Hólmar Örn Eyjólfsson og Björn Bergmann Sigurðarson eru allir meiddir.

Fróðlegt verður að sjá byrjunarliðið á morgun en yngri og óreyndari menn gætu fengið tækifæri. Hinn 19 ára gamli Arnór Sigurðsson er nýliði í íslenska hópnum og hann gæti fengið sénsinn á morgun sem og fleiri yngri leikmenn. Erik var spurður út í nýja kynslóð í landsliðinu.

„Við erum lítið land og þú verður að taka því að þetta er upp og niður. Þetta er sama í Svíþjóð og öðrum Norðurlöndum. Stundum eru góðar kynslóðir en stundum ekki eins góðar. Við þurfum að taka því. Stærri þjóðir geta alltaf komið með góða leikmenn."

„Við þurfum að búa til leikmenn. Við erum með einn 19 ára núna sem er í fyrsta skipti í hópnum. Hann er að spila með CSKA Moskvu í Meistaradeildinni og við erum með leikmenn sem gætu orðið góðir í framtíðinni. Við þurfum samt líka að taka því að þetta er aðeins meira upp og niður í landi eins og hjá okkur, Við erum ennþá með þessa frábæru kynslóð og vonandi getur hún gefið okkur meira. Við sjáum síðan hverjir koma upp en ég er vongóður,"
sagði Erik.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner