Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fös 19. október 2018 10:26
Elvar Geir Magnússon
Bayern boðaði fréttamannafund og hraunaði yfir fjölmiðla og sérfræðinga
Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern.
Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern.
Mynd: Getty Images
Rummenigge og Niko Kovac að skála fyrr í þessum mánuði. Kovac hefur fullt traust stjórnar Bayern þrátt fyrir dapran árangur.
Rummenigge og Niko Kovac að skála fyrr í þessum mánuði. Kovac hefur fullt traust stjórnar Bayern þrátt fyrir dapran árangur.
Mynd: Getty Images
Bayern München boðaði tvöfaldan fréttamannafund í dag. Sögusagnir fóru á kreik um að Niko Kovac, þjálfari liðsins, gæti fengið sparkið en Þýskalandsmeistararnir eru án sigurs í síðustu fjórum leikjum.

En Kovac mætti sjálfur á fyrri fréttamannafundinn og var létt yfir Króatanum. Hann sagði mikilvægt að Bayern tæki þrjú stig gegn Wolfsburg á morgun og sagði að krísan væri aðeins hvað varðar úrslit. Frammistaða leikmanna og hugarfar væri enn 100%.

Þegar Kovac hafði farið yfir komandi leik þá kvaddi hann fjölmiðlamenn brosandi og óskaði þeim góðrar skemmtunar á fundinum sem væri framundan.

Reiði æðstu manna Bayern
Þá mættu forsetinn Uli Höness (66), stjórnarformaðurinn Karl-Heinz Rummenigge (63) og íþróttastjórinn Hasan Salihamidzic (41). Mennirnir sem eru í æðstu stöðum þýska félagsins.

Á fundinum fordæmdu þeir neikvæða umræðu um leikmenn félagsins, meðal annars eftir slæm úrslit þýska landsliðsins.

„Við látum ekki þessa niðurlægjandi aftöku fjölmiðla og sérfræðinga yfir okkur ganga hljóðalaust. Þetta er mikilvægur dagur fyrir Bayern því við viljum tilkynna að við sættum okkur ekki við þetta. Við verndum okkar leikmenn, þjálfara og félag," sagði Rummenigge reiður.

Margt af því sem sagt var á fundinum var augljóslega beint að Lothar Matthäus, fyrrum leikmanni Bayern, sem hefur verið harðorður í garð leikmanna í fjölmiðlum. Hann sagði til að mynda að Manuel Neuer ætti að missa sæti sitt í þýska landsliðinu.

„Gagnrýnin virðist ekki eiga sér nein takmörk. Þar er ég að tala um fjölmiðlamenn og fyrrum leikmenn. Ég á ekki orð yfir það sem sagt hefur verið um Manuel Neuer. Það sem hann hefur fært fótboltanum á enginn að draga í efa," sagði Rummenigge.

Hann segir að gagnrýni eigi rétt á sér ef hún er málefnaleg en segist vera misboðið hvað hefur átt sér stað í fjölmiðlum.

Hasan Salihamidzic tók í sama streng og sagði að sér hafi verið brugðið að fylgjast með umfjöllun fjölmiðla. Þá gaf hann það út að þjálfarinn Niko Kovac hefði fullt traust stjórnarinnar og ánægja væri með hans störf.

Það er ekki aðeins Kovac og leikmenn sem hafa fengið gagnrýni frá fjölmiðlum. Stjórn félagsins hefur fengið gagnrýni fyrir að styrkja leikmannahóp Bayern ekki meira í sumar.

Það er gríðarlega mikil ólga í kringum Bayern München og fróðlegt að fylgjast með framhaldinu á þeim bænum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner