fös 19. október 2018 10:00
Elvar Geir Magnússon
Metnaðarfullur Maguire vill spila í Meistaradeildinni
Maguire vill vinna titla í framtíðinni.
Maguire vill vinna titla í framtíðinni.
Mynd: Getty Images
Í nýju viðtali við BBC segist enski landsliðsmiðvörðurinn Harry Maguire vilja vinna titla og spila í Meistaradeildinni. Hann sé þó með hugann við Leicester núna, félagið sem gaf honum tækifærið.

Maguire er 25 ára og skrifaði undir nýjan fimm ára samning við enska úrvalsdeildarfélagið í september eftir að hafa verið orðaður við Manchester United á liðnu sumri.

Hann var einn af lykilmönnum enska landsliðsins sem komst í undanúrslit HM í Rússlandi.

„Ég vil einbeita mér að fullu að Leicester á þessu tímabili. Sjáum hvert félagið nær og hvernig framtíðarhorfurnar verða. Þetta er félagið sem varð til þess að ég spilaði á HM og það er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Stór hluti af mér vill gefa til baka," segir Maguire.

Hann viðurkennir þó að erfitt verði að hafna stærra félagi í framtíðinni.

„Það væri klárlega erfitt. Ég er metnaðarfullur leikmaður. Allir vilja spila á sem hæsta styrkleika, allir vilja spila í stærstu fótboltamótum heims. Meistaradeildin er ein af þeim."

Maguire hóf feril sinn hjá Sheffield United, áður en hann gekk í raðir Hull 2014 og fór þaðan til Leicester þegar Hull féll.

„Aðalmarkmiðið er að spila í hverri viku í úrvalsdeildinni og vera valinn í enska landsliðið. En ég vil einnig vinna titla. Ég vil vinna bikara með landsliðinu og félagsliði. Síðan ég steig fyrst inn á fótboltavöll hef ég alltaf haft trú á sjálfum mér, að ég gæti farið í hæstu hæðir."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner