Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   fös 17. nóvember 2023 08:50
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Öll púsl þurfa að falla fyrir mars
Elvar Geir skrifar frá Bratislava
Elvar Geir Magnússon
Úr leik Slóvakíu og Íslands.
Úr leik Slóvakíu og Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland átti í vök að verjast í Bratislava í gær og mikil vonbrigði hversu miklu betri heimamenn voru í leiknum. Frammistaða Íslands í riðlinum hefur alls ekki verið nægilega góð, og einkennst af miklum óstöðugleika.

Liðinu gengur bölvanlega að tengja saman tvo góða leiki og það er ekki góðs viti fyrir umspilið sem verður að öllum líkindum niðurstaðan í mars. Umspilið eru tveir leikir, stakur undanúrslitaleikur á útivelli og svo úrslitaleikur nokkrum dögum síðar.

Það er alveg ljóst að hreinlega öll spil þurfa að falla með okkur í mars. Það er enn nokkuð langt í umspilið, rúmir fjórir mánuðir.

Ísland er brothætt varnarlega og hefur verið mjög illa samstillt í nokkrum leikjum. Það er mikið talað um breiddarleysi okkar þegar kemur að varnarmönnum og varnartengiliðum. Lykilmennirnir í þessum stöðum hreinlega verða að vera heilir heilsu þegar kemur að glugganum því mikið áhyggjuefni er að Ísland virðist einhverra hluta vegna ekki vera að framleiða leikmenn í nógu háum gæðaflokki í þessar stöður.

Vegferð Gylfa Þórs Sigurðssonar er annað lykilatriði sem hreinlega verður að falla með okkur. Eins og hann hefur margoft sýnt í íslenska búningnum er hann leikmaður sem getur klárað leiki nánast upp á sitt einsdæmi ef skipulag liðsins er gott.

Reynslumestu lykilmennirnir þurfa að vera í toppstandi og yngri leikmennirnir að þroskast fljótt. Svo hreinlega þarf heppnin að vera með okkur, heppnin og VAR ákvarðanirnar.

Það er ekki hægt að segja að maður sé fullur bjartsýni fyrir umspilið eftir leikinn gegn Slóvakíu í gær og staðan á liðinu er þannig að EM draumurinn virðist hreinlega vera fjarlægur. Leikmenn sjálfir eru meðvitaðir um að þetta var slakt í gær, þjálfarinn og þeir þurfa að finna lausnir svo liðið virki meira sem heild.

Gleymum því samt ekki að Ísrael, Bosnía og Finnland eru líklegir andstæðingar okkar í umspilinu. Ísrael tapaði fyrir Kosóvó í þessum glugga, við vitum vel hvaða vandræðagangur hefur verið hjá Bosníu sem er sífellt að reka þjálfara og tap Finna gegn Kasakstan í síðasta leik liðsins var þriðji tapleikur þeirra í röð. Það eru fleiri sem eru ekki að dansa á rósum.

Það þýðir ekki að sökkva sér í eymd og volæði. Sem betur fer er langt í mars en það þarf hreinlega allt að falla með okkur áður en kemur að umspilinu ef við ætlum að ná Krísuvíkurleiðinni á EM.
Athugasemdir
banner
banner