Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
banner
   lau 27. apríl 2024 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Tuchel: Eric Dier verðskuldar að vera í byrjunarliðinu
Ekki lengi að festa sig í sessi í nýrri deild.
Ekki lengi að festa sig í sessi í nýrri deild.
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Thomas Tuchel, fráfarandi þjálfari þýska stórveldisins FC Bayern, svaraði spurningum á fréttamannafundi fyrir leik liðsins gegn Eintracht Frankfurt í þýsku deildinni.

Tuchel svaraði meðal annars spurningum um enska varnarmanninn Eric Dier sem er mikið í kringum byrjunarliðið þrátt fyrir að vera í samkeppni við þá gríðarlega öflugu Dayot Upamecano, Matthijs de Ligt og Kim Min-jae um byrjunarliðssæti.

„Ég er virkilega ánægður með Eric, hann er að standa sig ótrúlega vel. Hann er að reynast mikilvægur partur af liðsheildinni, við þurftum á honum að halda. Hann er mjög vel skipulagður og sérstaklega duglegur að láta í sér heyra," sagði Tuchel við fréttamenn.

„Hann hjálpar liðsfélögunum mjög mikið og er með frábæran persónuleika. Hann er góður í fótbolta og verðskuldar að vera í byrjunarliðinu."

Dier er búinn að byrja 10 af síðustu 11 leikjum Bayern þar sem liðið er komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa tapað Þýskalandsmeistaratitlinum til Bayer Leverkusen.

Tuchel tók við Bayern fyrir rúmu ári síðan en mun yfirgefa félagið eftir yfirstandandi tímabil. Stór hluti stuðningshóps Bayern vill þó halda Tuchel við stjórnvölinn og hefur hrint af stað undirskriftasöfnun til að stöðva fyrirhugaða samningsriftun.

Rúmlega 12 þúsund manns hafa þegar skrifað undir en hinn fimmtugi Tuchel er þakklátur fyrir stuðninginn.

„Auðvitað er það jákvætt fyrir mig þegar stuðningsfólkið vill halda mér, en það er ekki forgangsatriði. Það eina sem kemst að á næstu ellefu dögum er fótbolti. Það er ekkert annað til, ég leyfi engu öðru að hafa áhrif á mig - hvort sem það er jákvætt eða neikvætt. Ég er búinn að setja heyrnartólin á mig og slökkva á öllum utanaðkomandi hljóðum."

Ralf Rangnick er talinn vera ofarlega á óskalista Bayern yfir mögulega arftaka Tuchel. Julian Nagelsmann var efstur á lista en hann tilkynnti á dögunum að hann ætlar að halda áfram með þýska landsliðið.

Dier er 30 ára gamall og spilar með Bayern á láni frá Tottenham þar til í júní 2025, þegar hann verður samningslaus. Hann á 49 landsleiki að baki fyrir England og lék 365 keppnisleiki fyrir Tottenham eftir að hafa alist upp hjá Sporting CP í Portúgal.
Athugasemdir
banner
banner
banner