Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
banner
   sun 03. desember 2023 16:44
Gylfi Þór Orrason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Er, VAR og verður
Gylfi Þór Orrason
Gylfi Þór Orrason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ertu með eða á móti VAR? Eyðileggur leikinn? Alltof miklar tafir o.s.frv. Áður en lengra verður haldið í þessum pistli vil ég gera lýðum ljóst að sjálfur var ég frá upphafi mótfallinn innleiðingu kerfisins. Taldi ég, og tel enn, að mistök dómara séu jafnmikill hluti leiksins og senters sem klikkar í dauðafæri (eða markmanns sem fær hann í gegnum klofið). Tilgangurinn með VAR-kerfinu er ekki sá að „endurdæma“ leikinn, heldur frekar að reyna að fækka alvarlegum mistökum sem ráðið geta úrslitum.

IFAB (Alþjóðasamtök knattspyrnusambanda) tóku hins vegar illu heilli þá ákvörðun fyrir u.þ.b. tíu árum að heimila „eftirádómgæslu“. Á eftir fylgdu síðan breytingar á sjálfum knattspyrnulögunum sem skýra eiga hvar VAR sé heimilt að grípa inn í leikinn. Það er eingöngu þegar málið snýst um:

Mark (skorað löglega eða ekki).

Vítaspyrnu (sem var dæmd, eða hefði átt að dæma).

Beint rautt spjald (þ.e. ekki þegar málið snýst um annað gula spjaldið).

Ranga auðkenningu leikmanns (þar sem dómari sýnir röngum leikmanni brotlega liðsins gula spjaldið eða það rauða).

Stundum sjáum við í endurtekningu sjónvarpsins að dómari (eða aðstoðardómari) hefur klikkað og dæmt ranglega hornspyrnu þegar markspyrna hefði átt að vera niðurstaðan. Lögmál Murphys segir okkur svo líka að venjulega sé skorað úr þessum hornspyrnum. Markið gefur þá líka þjálfara tapliðsins mjög góða afsökun í viðtalinu eftir leikinn – „þetta var aldrei hornspyrna“. VAR getur ekki lagað þetta.

En förum nánar yfir punktana fjóra hér að ofan:

Þegar mark er skorað þá skoðar VAR það sem kallað er APP (Attacking Possession Phase) í aðdraganda marksins. Braut liðið sem skoraði markið af sér í aðdragandanum (ath. að nýtt APP byrjar í hvert skipti sem hitt liðið nær að snerta boltann, viljandi)?

Vítaspyrna. Slíkar ákvarðanir, hvort sem þær eru dæmdar eða hefðu átt að vera dæmdar, verða að vera „greinilegar og augljósar“ (Clear and Obvious). Ef Gummi Ben og Reynir Leós eru á sitt hvorri skoðuninni um hvort vítaspyrnudómurinn hafi verið réttur, þá er þar varla hægt að tala um „greinileg og augljós“ mistök dómarans, er það? Þar af leiðandi á VAR ekki að kalla dómarann í VAR-sjána (frábær íslensk þýðing á „OFR - on-field-review“, sem ég á ekkert í), enda ákvörðun dómarans umdeild. Hæg endursýning (eða kyrrmynd) lætur tæklinguna líka oft líta mjög illa út.

Beint rautt spjald. Ef trampað er á fót – gult spjald. Ef tæklingin lendir ofan ökkla – rautt spjald. VAR þarf að láta dómarann vita ef hann klikkar á þessu mati. Svo þarf líka að meta RUPL (ræna upplögðu marktækifæri) o.s.frv. RUPL innan vítateigs – vítaspyrna og gult spjald, RUPL utan vítateigs – vítaspyrna og rautt spjald).

Röng auðkenning leikmanns. Ef dómari sýnir leikmanni gula (eða rauða) spjaldið sem annar hefði átt að fá ber VAR að leiðrétta það.

Rangstaða
Líklega mest umdeild, en flokkast undir fyrsta punktinn hér að ofan. Leikmaður (sem talinn er hafa áhrif á leikinn) telst vera í rangstöðu ef hann er „nær markinu eða boltanum en næstaftasti mótherji þegar hann fær sendingu/snertingu frá samherja“. Oft nánast „sentímetrastríð“. En hvar á annars að setja mörkin? Er í lagi að menn séu bara 2 sentímetra fyrir innan, af því að það er svo lítið? En hvað þá um 5 sentímetra, eða tíu? Hvar vill fólk að mörkin liggi. Rangstaða er þannig spurning um staðreynd, rétt eins og boltinn sem er innan eða utan leikvallar. Græjurnar sem notaðar eru í enska boltanum eru með nákvæmni upp á 0,3sm (en fyrir hefur þó komið að upphafspunktarnir báðum megin séu rangt settir inn). Svo er það annað vandamál/rifrildi hvenær „óaktívur“ leikmaður telst hafa áhrif á mótherja.

Ef/þegar KSÍ tekur upp VAR-kerfið (VAR light er það kallað, þar sem eingöngu eru gerðar kröfur um að lágmarki 4 myndavélar, og á ekki að vera KSÍ þungur fjárhagslegur baggi) þá mun ákvörðun aðstoðardómarans inni á vellinum verða látin ráða þegar endursýningar ná ekki að taka óumdeilt af skarið um rangstöðu.

Hendi
Í gamla dag þá taldist það hendi ef menn „beittu öxlinni“. Í dag er það heimilt. En hvar eru mörk handleggsins og axlarinnar? Í stuttermabol þá telst það nú tilheyra öxlinni (ekki hendi) ef boltinn fer í peysuna, en handleggnum (hendi) þar fyrir neðan. Þar fyrir utan þá er ekki alltaf „hendi þegar það er hendi“. Það væri reyndar eins og að æra óstöðugan að reyna að skilgreina það í stuttu máli. En þumalputtareglan er einföld – ef þú vilt fá víti fyrir hendi innan teigs hjá mótherjunum, en telur það hins vegar ekki eiga við inni í teig hjá þínu liði = ekki hendi.

VAR-kerfið er komið til að vera, hvort sem menn sætta sig við það eða ekki. Ísland verður að dansa með. Annars mun framtíðin flokka okkur með steinaldarmönnum fótboltans.
Athugasemdir
banner
banner
banner