Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   fim 28. mars 2024 13:06
Brynjar Ingi Erluson
„Þetta er ótrúlega sorglegt“
Mauricio Pochettino og Romeo Lavia
Mauricio Pochettino og Romeo Lavia
Mynd: Getty Images
Ben Chilwell var ekki með á æfingu í dag
Ben Chilwell var ekki með á æfingu í dag
Mynd: Getty Images
Belgíski miðjumaðurinn Romeo Lavia verður ekkert meira með Chelsea á tímabilinu vegna meiðsla. Mauricio Pochettino, stjóri félagsins, segir þetta allt saman gríðarlega sorglegt.

Chelsea hafði betur gegn Liverpool í baráttunni um Lavia undir lok félagaskiptagluggans á síðasta ári.

Leikmaðurinn var keyptur fyrir um 60 milljónir punda frá Southampton og var búist við miklu frá honum.

Meiðsli hafa hins vegar sett stórt strik í reikninginn en hann hefur aðeins spilað 30 mínútur á öllu tímabilinu og er nú búið að staðfesta að hann verði frá út leiktíðina.

„Auðvitað er hann ekki ánægður því hann hefur bara spilað 30 mínútur sem nýr leikmaður félagsins. Þetta er synd en stundum gerast þessir hlutir í fótbolta. Við höfum ekki einu sinni fengið að æfa með honum þannig þetta er ótrúlega sorglegt því við þurfum að bíða fram á næsta tímabil,“ sagði Pochettino á blaðamannafundi í dag.

Langur meiðslalisti

Chelsea opinberaði meiðslalista sinn í dag en alls eru níu menn í meðhöndlun, ef Lavia er tekinn með inn í dæmið. Trevoh Chalobah, Carney Chukwuemeka, Robert Sanchez, Levi Colwill, Wesley Fofana, Reece James, Christopher Nkunku og Lesley Ugochukwu eru einnig á listanum.

Ben Chilwell, lykilmaður Chelsea, er þá að glíma við smávægileg meiðsli en ekki er ljóst hvort hann verði með gegn Burnley um helgina.

Chilwell var ekki með á æfingu í dag en Pochettino er að binda vonir við að hann nái leiknum.

„Við þurfum að meta stöðuna á nokkrum leikmönnum eins og Ben Chilwell sem fékk högg á fótinn. Hann gat ekki æft í dag þannig við þurfum að skoða stöðuna betur á morgun. Það kom mér á óvart að hann byrjaði tvo leiki fyrir England og núna er hann meiddur, en við þurfum að hafa hann kláran til að spila fyrir okkar félag,“ sagði Pochettino.
Athugasemdir
banner
banner
banner