Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   þri 26. mars 2024 23:38
Brynjar Ingi Erluson
Hefði verið gott að eiga Gylfa inni - „Þá á ekki að nota þau rök að hann hafi ekki verið að spila“
Icelandair
Gylfi Þór Sigurðsson spilaði sinn fyrsta leik með Val á dögunum
Gylfi Þór Sigurðsson spilaði sinn fyrsta leik með Val á dögunum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason og Lárus Orri Sigurðsson ræddu aðeins um fjarveru Gylfa Þórs Sigurðssonar í þessu landsliðsverkefni og hvort hann hefði getað hjálpað liðinu í leiknum í kvöld.

Spekingarnir voru í setti með Kjartan Atla Kjartanssyni á Stöð 2 Sport. Þar velti Kjartan fyrir sér hvort það hefði ekki verið gott að eiga Gylfa Þór inni, þó það væri ekki nema í nokkrar mínútur.

Gylfi var ekki valinn í A-landsliðið, þó hann hafi verið að æfa með Fylki og Val á Spáni.

Hann hefur vissulega verið á meiðslalistanum síðustu mánuði en kom við sögu í leik með Val í Lengjubikarnum á dögunum.

„Sko, við Lárus ræddum þetta aðeins áðan. Einu rökin sem ég sé gild fyrir að velja hann ekki er að við vitum ekki á hvaða stað hann er. Þá er það bara að hoppa upp í vél og tékka hvar hann stendur. Getur hann hjálpað okkur? Það er ekki spurning, þó hann spili korter þá kemur hann alltaf með. Ég vildi meina að Kolbeinn hafi átt að fara með okkur á HM þó hann hefði bara getað spilað fimm mínútur, því svona menn hjálpa okkur og eru frábærir leikmenn,“ sagði Kári og var Lárus Orri sammála, en hann vildi meina að það minnsta sem hægt væri að gera er að taka flugið til Spánar og athuga stöðuna.

„Já, klárlega. Það eru skiptar skoðanir um þetta og fótbolti er ekki svart og hvítt. Þetta er allt á gráum svæðum en auðvitað áttu ekki að taka leikmenn í landsliðið sem eru ekki í félagsliði eða ekki að spila reglulega, en svo kemur svona hlutur upp eins og með Gylfa, þá gildir þessi regla ekki lengur. Við erum tala um Gylfa Sigurðsson og allt sem hann hefur gert fyrir knattspyrnuna á Íslandi. Ef hann hefði valið hann þá hefði enginn sagt neitt, en af því hann ákvað ekki að velja hann þá á ekki að nota þau rök að hann hafi ekki verið að spila því hann valdi Aron í tvígang í glugganum fyrir áramót og hann var ekki að spila neitt.“

„Farðu til Spánar, skoðaðu hann og sjáðu hvernig standi hann er í. Sjáðu hann æfa með Fylki eða sjáðu hann æfa með Val. Ef hann er ekki í standi og getur ekki hjálpað okkur, þá getur þú alla vega sagt að við séum búin að kíkja á hann,“
sagði Lárus á Stöð 2 Sport.
Athugasemdir
banner