Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   þri 26. mars 2024 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Markvarðargoðsögn um Vinicius Junior: Ekki vera faggi, fótbolti er ætlaður körlum
Jose Luis Chilavert
Jose Luis Chilavert
Mynd: Getty Images
Vinicius Junior
Vinicius Junior
Mynd: EPA
Paragvæska goðsögnin Jose Luis Chilavert gekk langt yfir strikið í gærkvöldi er hann tjáði sig um tilfinningaríkan blaðamannafund Vinicius Junior.

Vinicius brast í grát á blaðamannafundi fyrir landsleik Brasilíu og Spánar, en þar var hann spurður út í þá kynþáttafordóma sem hann hefur orðið fyrir síðasta árið.

Brasilíumaðurinn hefur ekki fengið frið fyrir stuðningsmönnum spænskra liða, sem beita hann óspart kynþáttaníði í leikjum. Þetta hefur haft mikil áhrif á sálartetur Vinicius, sem felldi tár á fundinum.

Einum fyrrum fótboltamanni fannst þetta vera sirkúsatriði frá Vinicius en margir þekkja þann mann. Það var sjálfur Jose Luis Chilavert, sem stóð í marki paragvæska landsliðsins frá 1989 til 2003.

Hann var hvað þekktastur fyrir það að taka aukaspyrnur og vítaspyrnur fyrir bæði landslið og félagslið. Þá er hann fyrsti markvörðurinn til að hafa skorað þrennu, en það gerði hann í leik með Velez í Argentínu.

Utan vallar er hann ekki sami snillingurinn. Hann hefur ráðist á sálfræðing, látið hómófóbísk orð falla og komið sér í alls konar vesen og því ættu ummæli hans um Vinicius ekki að koma neinum á óvart.

„Brauð og sirkús. Hann er fyrstur til að móðga og ráðast á andstæðinga sína. Ekki vera faggi, fótbolti er ætlaður körlum,“ sagði Chilavert á X.

Ummæli hans eru hómófóbísk, sýnir greinilega vott af kvenfyrirlitningu og svo má auðvitað deila um það hvort hann sé rasisti líka. Kannski hatar hann Brasilíumenn, en hann sakaði Roberto Carlos eitt sinn um kynþáttafordóma er Brasilía mætti Paragvæ. Carlos átti þá að hafa kallað hann indjána og gripið um eistu sín fyrir framan þennan fyrrum markvörð.


Athugasemdir
banner