Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mið 27. mars 2024 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rasmus aftur í ÍBV (Staðfest)
Lengjudeildin
Rasmus ásamt fjölskyldu sinni.
Rasmus ásamt fjölskyldu sinni.
Mynd: ÍBV
Varnarmaðurinn Rasmus Christiansen hefur gengið til liðs við ÍBV á nýjan leik og skrifaði undir samning við knattspyrnudeild félagsins til loka þessa tímabils.

Þessi 34 ára gamli miðvörður kom einnig til liðsins árið 2010, þá 20 ára gamall.

Rasmus lék 64 af 66 leikjum ÍBV árin 2010-2012, fyrsta árið lék Rasmus með Eiði Aroni Sigurbjörnssyni þar sem þeir mynduðu sterkt miðvarðapar í ÍBV liði sem var einum sigri frá Íslandsmeistaratitli undir stjórn Heimis Hallgrímssonar. Öll árin sem Rasmus lék með ÍBV var þriðja sætið niðurstaðan í deildinni þar sem hann var án alls vafa einn af bestu varnarmönnum efstu deildar.

Rasmus hélt til Noregs þar sem hann lék með Ull/Kisa eftir árin með ÍBV áður en leið hans lá aftur til Íslands. Hann gekk til liðs við bikarmeistara KR og lék með þeim árið 2015 áður en Valsmenn sóttu hann. Árin 2017 og 2018 varð Rasmus Íslandsmeistari með Valsliðinu og árið 2019 hjálpaði hann Fjölnismönnum að vinna sér sæti í efstu deild, þá á láni frá Valsmönnum. Árið 2020 varð hann aftur Íslandsmeistari með Val og þá í lykilhlutverki þar sem hann lék alla 18 leiki liðsins.

Á síðasta ári lék Rasmus lykilhlutverk í sterku liði Aftureldingar sem endaði í öðru sæti Lengjudeildarinnar. Í sumar fær Rasmus það verkefni að hjálpa ÍBV að komast aftur upp í Bestu deildina.

„Við viljum bjóða Rasmus velkominn á nýjan leik til Vestmannaeyja og ríkir mikil ánægja innan félagsins með heimkomu hans en Rasmus á tvö börn með Elísu Viðarsdóttur, sem er ein af bestu knattspyrnukonum Vestmannaeyja fyrr og síðar," segir í tilkynningu félagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner