Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   þri 16. apríl 2024 21:40
Ívan Guðjón Baldursson
Meistarar meistaranna: Víkingur vann eftir vítaspyrnukeppni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur 1 - 1 Víkingur R.
0-1 Sigdís Eva Bárðardóttir ('6)
1-1 Amanda Jacobsen Andradóttir ('52)
4-5 í vítaspyrnukeppni

Lestu um leikinn: Valur 1 - 1 Víkingur R.

Valur og Víkingur R. áttust við í úrslitaleik í Meistarakeppni KSÍ í kvöld og úr varð hörkuleikur. Þetta er nákvæmlega eins og gerðist karlamegin, þar sem Valur og Víkingur áttust við í hörkuslag sem þurfti að útkljá með vítaspyrnukeppni.

Víkingur R., sem er nýliði í Bestu deild kvenna, tók forystuna snemma leiks á Hlíðarenda með laglegu marki frá Sigdísi Evu Bárðardóttur með skoti utan teigs.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn eftir þetta mark þar sem bæði lið komust í góðar sóknir og fengu fín færi sem tókst ekki að nýta. Staðan var því 0-1 í leikhlé, en heimakonur voru fljótar að jafna í upphafi síðari hálfleiks.

Þar var landsliðskonan Amanda Jacobsen Andradóttir á ferðinni þegar hún skoraði með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu nokkuð langt utan vítateigs, sem hún fiskaði sjálf. Amanda setti gríðarlegan kraft í skotið og átti Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir ekki möguleika á milli stanganna.

Það hljóp mikið líf í leikinn í síðari hálfleik þar sem bæði lið fengu góð færi sem fóru forgörðum. Nadía Atladóttir kom inn af bekknum í sínum fyrsta leik fyrir Val, og það gegn gömlu stöllunum í Víkingi, og var hún ótrúlega nálægt því að skora með sinni fyrstu snertingu en tókst ekki.

Amanda komst svo nálægt því að skora annað mark en boltinn rataði ekki í netið. Víkingar gerðu vel að halda út og var flautað til vítaspyrnukeppni, þar sem bæði lið skoruðu úr fyrstu tveimur spyrnunum sínum en klúðruðu svo þeirri þriðju.

Katie Cousins og Sigdís Eva Bárðardóttir skutu báðar yfir en því fylgdu tvö mörk í röð frá báðum liðum. Sigurborg varði fyrri vítaspyrnu Önnu Bjarkar Kristjánsdóttur en hún fékk að taka hana aftur því Sigurborg var ekki með fót á marklínunni.

Sigurborg átti þó eftir að reynast hetjan þegar hún varði slaka vítaspyrnu frá Hailey Whitaker og skoraði Gígja Valgerður Harðardóttir úr næstu spyrnu til að tryggja Víkingum glæsilegan sigur.

Frábær byrjun á nýju tímabili hjá Víkingum, sem verður afar fróðlegt að fylgjast með í Bestu deildinni í sumar.




Athugasemdir
banner